Borg Brugghús
Borg brugghús er íslenskt sælkerabrugghús sem rekið er af Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni og innan vébanda hennar. Borg brugghús er öðrum þræði vöruþróunardeild Ölgerðarinnar, þar sem vinsælir bjórar geta farið í fjöldaframleiðslu í aðalbrugghúsinu. Margir Borgarbjóranna hafa unnið til verðlauna í alþjóðlegum keppnum. Sturlaugur Jón Björnsson var eini bruggmeistari Borgar fyrst eftir stofnun. Fljótlega bættist Valgeir Valgeirsson við, en hann hafði áður verið bruggmeistari í Ölvisholti. Árni Theodór Long, sem einnig starfaði um skeið í Ölvisholti, slóst síðar í hópinn og eftir að Hlynur Árnason hóf störf eru bruggmeistararnir orðnir fjórir talsins. Allir hafa þeir starfað við erlend brugghús. Nær allir bjórar frá Borg brugghús eiga það sameiginlegt að bera karlmanns- eða kvenmannsnöfn, ásamt raðnúmeri. Flöskumiðarnir eru allir í sama stíl, en þó mismunandi á litinn. Þannig eru jólabjórar með rauðan miða, þorrabjórar eru svartir, páskabjórarar ljósgulir, sumarbjórar grænir og Októberfestbjórarnir fjólubláir. Ljósbrúnn miði gefur til kynna að bjórinn sé í fastri sölu allan ársins hring.
Source: Wikipedia